A site about nothing...

sunnudagur, október 19, 2008

Airwaves 2008

Þá er Airwaves hátíðinni lokið þetta árið. Þetta var í fyrsta skipti í 3 ár sem ég fer enda hef ég verið í einhverjum erlendum borgum í rugli eins og að læra og stöff. Hátíðin í ár var með minni af svona frægum nöfnum en þónokkuð af hæpuðum böndum og sum sem eru að detta í það að verða fræg. Annað sem mér fannst ég taka eftir á hátíðinni í ár er hversu ótrúlega fjölbreytta og góða tónlistarmenn við eigum. Fjöldi íslenskra banda sem ég sá voru fáránlega góð og stóðust erlendum listamönnum algjörlega snúning.

Hér á eftir og næstu daga ætla ég að skrifa aðeins um hvern dag, hvað ég sá og hvað stóð upp úr.

Miðvikudagur
Fyrsti dagur hátíðarinnar var nánast eingöngu með íslenskum böndum og því gat maður séð þau þetta kvöld og kannski séð eitthvað erlent eða annað band á komandi dögum þar sem mörg þeirra spiluðu aftur.

Þegar ég mætti í bæinn var Borko að klára sitt sett og ég heyrði restina af honum meðan ég beið í röð eftir að komast inn. Þar sem Benni Hemm Hemm átti að taka við og ég er ekki hrifinn af honum sem söngvara, þó svo mér finnist lögin flott, þá ákvað ég að fara frekar á Organ og sjá Múgsefjun sem áttu að byrja að spila á sama tíma og Benni. Múgsefjun voru góðir, fóru í gegnum lögin sín af öryggi og flutningurinn var mjög góður hjá þeim. Það skrýtna var samt að ég mætti um það leyti sem þeir áttu að byrja en ég get svarið það að þeir spiluðu einhver 4-5 lög og af þeim þá var frægasta lagið ekki síðast heldur eitthvað nýtt held ég. Skrýtin byrjun en það sem ég heyrði var gott hjá þeim.

Næst var stefnan tekin á Tunglið aftur til að geta séð Hjaltalín og svo síðar Retro Stefson. Það voru greinilega fleiri á þessari skoðun því röðin var ansi löng og miðaði hægt. Því fór svo að ég heyrði allt sett Hjaltalín bíðandi í röðinni í grenjandi rigningu. En raðir eru til að kynnast fólkinu og ég nýtti tímann og kynntist tveimur konum frá New York, lesbíur tel ég, sem voru komnar til að upplifa Airwaves og að stalke-a meðlimi hljómsveitarinnar Robots in Disguise sem mér skyldist á þeim að væru karl og kona. Í gær kom hinsvegar í ljós að allir þrír meðlimir þeirrar hljómsveitar eru konur og styður það kenningu mína um kynhneigð þeirra. Að öllu tali slepptu um kynhneigð þá var gaman að spjalla við þær og heyra hvað þær voru að fíla í tónlistinni hérna og senuna sem þær báru saman við early new york í kringum svona 80-90 fannst mér á þeim.

Við komumst loks inn þegar Hjaltalín hætti að spila og við tók bið eftir Retro Stefson. Ég hef ekki mikið hlustað á þau en fór aðeins á myspace-ið og fannst það mjög áhugavert. Úr varð að þetta voru bestu tónleikarnir þetta kvöldið þar sem stemmningin í þeim og stuðið í tónlistinni var algjörlega að gera sig. Klárlega band sem ég ætla að fylgjast betur með.

Eftir þá tónleika fór ég heim, ágætlega saddur við fyrsta dag í Airwaves.

Að lokum mæli ég með að allir fari á myspace Retro Stefson og hlusti á Paul is dead.

þriðjudagur, október 14, 2008

Ane Brun á Airwaves 2008

Fyrir svona ári til tveim árum síðar þá voru haldnir sería af tónleikum í Norræna húsinu af einhverju tilefni og í tilefni af því var settur glerskáli fyrir framan Norræna húsið þar sem komið var upp tónleikaaðstöðu. Inn á hluta af þessum tónleikum kostaði og inn á aðra kostaði ekki neitt.

Á þessum tíma var ég mjög mikið að hlusta á Seabear og hafði gefið plötunni þeirra mjög góðan dóm á Rjómanum. Ég hafði síðan séð bandið spila í Iðnó fyrr um sumarið á sérstöku Morr music kvöldi, útgáfufyrirtækið þeirra úti, en þau spiluðu í kannski 20 mínútur og það olli mér vonbrigðum. Svo þegar dagskráin er auglýst þá sé ég að Seabear er að spila eitt kvöldið ásamt einhverjum öðrum böndum og að það er ókeypis, hötum það ekki. Í Kastljósinu þetta kvöldið í lok þáttarins spilar síðan einn af flytjendum kvöldsins og það hljómar bara mjög vel þannig að ég hafði það á bakvið eyrað ef ég vildi vera áfram. Úr verður að ég dreg Ástu Siggu með mér á tónleikana og Seabear spila miklu lengur en fyrsta skiptið sem ég sá þau og voru virkilega góð. Ásta var nýstigin upp úr einhverri pest og var eitthvað þreytt man ég en ég næ að sannfæra hana um að sitja með mér aðeins áfram og svo myndum við meta stöðuna eftir að hafa heyrt eitt eða tvö lög með flytjendanum sem ég heyrði í Kastljósinu fyrr um kvöldið. Úr varð að við horfðum á allan hennar flutning líka því hún var bara þetta góð. Einungis með kassagítar og fékk vinkonu sína Ninu Kinert, sem spilaði síðar á hátíðinni, til að syngja með sér ákveðin lög. Söngkonan sem um ræðir heitir Ane Brun og er norsk að upplagi en hefur búið í Svíþjóð síðan árið 2000.

Tónlistin sem Ane Brun flytur er þjóðlagatónlist, mjög melódísk og látlaus sem hentar ótrúlega vel hennar mögnuðu rödd. Ég ætla að leyfa ykkur að heyra lag sem hún syngur með hinum Færeyska Teiti og heitir Rubber & Soul. Þess má geta að Ane Brun spilar á Airwaves í ár, fimmtudag klukkan 23:45.

sunnudagur, október 05, 2008

Máttur tónlistarinnar

Það góða við tónlist er að hún á við í öllum aðstæðum. Núna þegar allir eru að reyna að leysa kreppuna og maður er kominn með upp í kok að heyra einhverjar getgátur og ályktanir frá misgáfuðum fréttamönnum og öðrum fræðimönnum þá legg ég til að maður hlusti bara á tónlist og leiða hugann frá þessu. Við vitum ekkert hvort eð er fyrr en þetta verður kynnt.

Á þessu ári gaf Portishead út plötu sem heitir Third. Á þeirri plötu er að finna lag sem heitir The Rip og er ótrúlega flott lag, sem byggist hægt og rólega upp á síendurteknu, dáleiðandi stefi og svo endar það allt í einu. Söngkona Portishead er með eina flottustu rödd sem til er og það passar ótrúlega vel við lagið. Þegar ég youtube-aði lagið þá fann ég að Thom Yorke og Jonny Greenwood hefðu tekið þetta lag í cover útgáfu að því er virðist heima hjá einhverjum og eins og við er að búast þá er útkoman æðisleg. Einfaldleikinn, tveir kassagítarar og röddin á Thom Yorke, er hafður í fyrirrúmi og allt elektróníska dæmið sem er í upprunalegu útgáfunni er tekið í burtu. Það er einmitt málið með frábær lög. Þau eru góð hvort sem þau eru þvílíkt íburðamikil með fullt af aukahljóðum eða ef þau eru spiluð á kassagítar.

fimmtudagur, september 25, 2008

Vínsmökkun



Anima Umbria 2006 - vínsmökkun

Vín og matur er fyrirtæki sem flytur inn mat og vín eins og nafnið gefur til kynna. Fyrirtækið fer óhefðbundnar leiðir við markaðssetningu vara sinna og ber þar helst að nefna Vínkeðjuna. Vínkeðjan virkar þannig að bloggari fær rauðvín eða hvítvínsflösku frá fyrirtækinu, drekkur hana og bloggar svo um hvað honum finnst um vínið. Svo tilnefnir bloggari næsta bloggara og þannig heldur keðjan áfram.

Önundur Páll Ragnarsson tilnefndi mig til að taka við keðjunni sem ég gerði með glöðu geði enda alltaf til í að fá að smakka á nýju víni. Arnar, eigandi Víns og matar, kom síðan með vínið til mín, sagði mér hvernig þetta gengi og nefndi að vínið hefði jafnvel gott af því að standa aðeins áður en því væri neytt og nóteraði ég það hjá mér.

Ég ákvað að prufa vínið undir þeim kringumstæðum sem ég drekk flest mín vín, í partýi. Ég leyfði því að standa í svona hálftíma eða svo áður en ég fékk mér fyrsta glasið og hafði það svo opið áfram eftir því sem leið á kvöldið og flaskan tæmdist. Fyrsti þefur af nýopnaðri flöskunni gaf til kynna að það væri svolítið ungt og kryddað. Af fyrsta glasinu að dæma fannst mér það svolítið létt, kannski aðeins of létt fyrir minn smekk. Eftir því sem á leið hinsvegar fannst mér meiri fylling koma í vínið og mætti það ágætlega mínum kröfum um fyllingu í rauðvíni þar sem ég vel vanalega vín með meðalfyllingu þegar ég vel vín í Vínbúðinni, enda meðalmaður.

Þar sem vín og matur eiga auðvitað frábærlega saman að þá fannst mér á fyrstu sopunum að þetta væri eflaust kjörið vín fyrir pastarétti eða álíka mat. Flaskan rann samt ljúflega niður og bragðið varð aldrei yfirþyrmandi eins og sumar flöskur verða er líður á.

Verðið á flöskunni í Vínbúðinni er 1990 krónur sem mér finnst kannski fulldýrt, allaveganna til partýdrykkju. Hins vegar ef maður vill gera vel við sig á föstudags eða laugardagskvöldi og elda góðan pastarétt þá kæmi vínið vel til greina.

EDIT: Bætti inn nafninu á víninu efst í póstinn þar sem ég algjörlega klúðraði því að hafa það í textanum. Biðst velvirðingar á því.

fimmtudagur, september 11, 2008

Stórra hluta er að vænta!

mánudagur, júní 16, 2008

Upphitunin heldur áfram fyrir Hróarskeldu. Í rannsókn minni á böndunum sem spila í ár hef ég rekist á nokkrar perlur sem ég hafði aldrei heyrt um áður. Ein af þeim er bandið The Dø. Þetta er tvíeyki sem kemur frá Finnlandi, gellan, og gaurinn er frá Frakklandi. Nafnið er komið úr upphafsstöfum þeirra, D fyrir Dan Levy (ekki mjög franskt nafn ef maður hugsar út í það) og gellan heitir Olivia B. Merilahti. The Dø spila tónlist sem hefur svo mörg element að maður uppgötvar eitthvað nýtt við hverja hlustun. Lögin sjálf eru síðan mjög melódísk og minna mig á heilmikið af góðu stöffi, t.d. Architecture in Helsinki (Playground Hustle) og Cardigans (On My Shoulders) ásamt öðrum listamönnum. Það verður forvitnilegt að sjá hvort tvíeykið nái að framkalla hljóm laganna í live performance en ég ætla ekki að missa af því, nema Radiohead sé að spila.


Myspace

laugardagur, júní 14, 2008

Rannsóknir á hljómsveitum Hróarskeldu hátíðar þessa árs eru komnar í gang af fullri alvöru. Eins og staðan er núna þegar þetta er skrifað að þá er ég kominn upp í D og búinn að finna fullt af góðum böndum sem ég hefði ekki haft hugmynd um hefði ég ekki lagt af stað í þetta.
Í d-inu fann ég listamann sem ég held ég bara verði að fara og sjá. Kauði heitir Dan Deacon og semur elektró danstónlist, sem stundum er fáránlega hress og eflaust fáránlega gaman að dansa við og stundum er þetta svona rólegri stemmning en samt virkilega flott. Hann mun víst vera með eitthvað mega show á Hróa þar sem það er vídjólistagjörningsmaður með honum og tveir trommuleikarar. Ég held að það verði algjör skyldumæting á Dan Deacon.

Dan Deacon - Crystal Cat